Markþjálfun útskýrð í stuttu máli
Finnst þér einhvern tímann eins og þú getir náð lengra í starfi eða leik en ert ekki viss hvernig þú eigir að komast þangað? Þú ert þá ekki ein/n um það. Mörg fáum við þá tilfinningu að ónýttu tækifærin séu mörg og markþjálfun er eitt þeirra verkfæra sem geta hjálpað þér að grípa þau.
Hvað er markþjálfun?
Markþjálfun er samtalstækni sem ætlað er að opna á möguleika hvers og eins til að hámarka eigin getu. Markþjálfun fer fram í trúnaðarsamtali þar sem markþjálfi spyr spurninga sem vekja einstaklinginn til umhugsunar og hjálpar honum að finna sinn innri styrk. Allt miðar þetta að því að læra betur að þekkja þig og taka skref í átt að eigin tilgangi, draumum og framtíðarsýn.
Með markþjálfun gefst m.a. tækifæri til að fá skýrari sýn á hvað þú vilt, móta leiðina að breytingum sem þú vilt gera, finna innri styrk og hugrekki til að fylgja hjartanu. Markþjálfunarsamtal er alltaf í trúnaði og hver og einn stýrir því sjálfur hvað rætt er í samtalinu.
Hvernig fer markþjálfun fram?
Kjarninn í markþjálfun er að hver og einn býr yfir eigin svörum við því sem leitað er að og hlutverk markþjálfa er að aðstoða við þá leit, en ekki að gefa ráð. Í markþjálfun horfum við á nútíð og framtíð og lítum á möguleikana og tækifærin en erum síður með hugann við fortíðina eða það sem þarfnast lagfæringa. Útgangspunkturinn er ekki að laga það sem er brotið heldur að styrkja og efla það sem er heilt og sterkt og finna tækifærin til vaxtar.
Áður en þú kemur í fyrsta markþjálfunarsamtalið er gott að þú hafir velt því fyrir þér hvað þú viljir fá út úr markþjálfuninni. Samtalið mun snúast um þig og það sem þú vilt verða, gera eða fá í þitt líf en í markþjálfuninni hjálpumst við að við að móta það markmið og gera það skýrara. Þetta á sér stað í trúnaðarsamtali okkar, sem ég leiði með kraftmiklum spurningum. Spurningunum er ætlað að vekja þig til umhugsunar, ýta við núverandi sjónarmiðum, grafa upp viðhorf sem halda aftur af þér eða koma auga á nýja möguleika.
Markþjálfun er einstaklingsmiðað og persónubundið ferli sem sniðið er að þörfum og aðstæðum hvers og eins. Hvort sem þú vilt skoða starfsferilinn þinn, sigrast á persónulegum áskorunum eða fá skýrari sýn á þinn tilgang í lífinu getur markþjálfun stutt við þig á þeirri leið.
Ávinningur af markþjálfun
Ávinningurinn af markþjálfun er margvíslegur. Með markþjálfun eykur þú sjálfsþekkingu þína og færð með því skýrari sýn á markmið þín og væntingar. Þú þróar þínar aðferðir til að sigrast á áskorunum, gera breytingar og sigla í gegnum mótlæti. Þú lærir að treysta á þig og finnur styrkleika þína, þrautseigju og sjálfstraust og finnur þar með hugrekkið og kraftinn til að grípa til aðgerða og taka þín mál í eigin hendur.
Traust, trúnaður og siðareglur
Það er lykilatriði að á milli markþjálfa og þess einstaklings sem sækir markþjálfun (markþega), ríki gagnkvæmt traust og virðing. Opinská og heiðarleg samskipti eru grunnurinn að árangri ásamt virkri þátttöku. Báðir aðilar þurfa að vera tilbúnir til að gera sitt besta til að vinna að þeim viðfangsefnum sem rædd eru í markþjálfuninni. Til að árangur náist þarf að ríkja algjör trúnaður og er það hluti af siðareglum ICF á Íslandi sem ég starfa eftir (https://www.icficeland.is/sidareglur).
Ertu til í að prófa?
Besta leiðin til að kynnast markþjálfun er að prófa. Hafðu samband við mig (ragnheidur@loacoaching.is) ef þú hefur spurningar eða vilt vita meira um markþjálfun og hvort hún henti þér.