Þitt besta líf með réttu markmiðunum

Það getur reynst erfiðara en mörg grunar að setja sér markmið sem þú heldur út að vinna að og ná. Hefur þú velt því fyrir þér hvers vegna það virðist lífsins ómögulegt að ná sumum markmiðum, sama hvað þú reynir? Oft gleymist nefnilega mikilvægt innihaldsefni; hvatningin. Málið er að þegar við eltumst við markmið að mestu vegna þess að „allir aðrir“ eru að vinna að slíku markmiði eða við höfum fengið þau skilaboð frá samfélaginu að við ættum líka að sækjast eftir því sama rekum við okkur á að þegar markmiðið reynir á okkur og verður erfitt skortir okkur kraftinn til að halda áfram.

Mörg okkar falla í þá gryfju að sækjast eftir markmiðum sem við þráum í raun og veru ekki og því kveikir markmiðið ekki þann eldmóð í okkur sem nauðsynlegur er til að ná krefjandi markmiðum. Ef við setjum okkur markmið út frá því sem aðrir ætlast til af okkur því sem við teljum okkur vilja án þess að hafa lagt mikla hugsun í málið er hætt við að við verjum tíma og orku í að hlaupa í ranga átt Svo þegar verkefnið verður krefjandi og reynir á okkur gefumst við upp. Án persónulegrar tengingar við markmiðið, skýrrar ástæðu fyrir því hvers virði það er fyrir okkur og vissunnar fyrir því að við sannarlega þráum að ná þessu markmiði verður hvatning aldrei nógu mikil til að við séum virkilega tilbúin að leggja á okkur það sem þarf til að ná markmiðinu.

Ef þetta þá ekki bara einfalt mál? Við setjum okkur markmið sem við virkilega þráum og tryggjum þar með topp hvatningu? Svarið við því er bæði já og nei. Það er ýmislegt fleira sem skiptir máli við að ná markmiðum en þegar hvatninguna skortir er afar ólíklegt að árangur náist. Þá hef ég ekki minnst á vandann við að vita hvað við sannarlega viljum. Sum telja sig vita það fyrir víst en hafa ekki gefið sér tímann sem þarf til að kynnast sér nægilega vel. Það er þarna sem góð sjálfsþekking skiptir sköpum. Að hafa gefið sér tíma og rými til að velta því fyrir sér hvað skiptir þig mestu máli í lífinu, hvaða styrkleikum þú býrð yfir og hvað kveikir eldmóðinn í þér. Þegar markmiðin þín eru í samhljómi við það hver þú ert, innra með þér innst í þínum kjarna, verða þau meira en bara reitir til að haka við eða eitthvað til að sanna virði þitt fyrir öðrum. Þau verða skref í átt að innihaldsríku og ánægjulegu lífi. Þau verða það sem gefur þér tilgang og fyllir þig orku.

Um leið og þú veist að þú ert að sækjast eftir markmiði sem er það rétta fyrir þig verður leiðin þangað auðveldari. Krefjandi markmið krefjast þess að við stígum út fyrir þægindarammann og þegar þú veist hversu miklu máli markmiðið skiptir þig finnur þú hugrekkið sem þarf til að verða sú manneskja sem þú þarft að vera til að ná markmiðinu. Þá er til mikils að vinna.

Ef þú vilt kafa dýpra í markmiðasetningu getur þú skoðað þetta:

Previous
Previous

Markþjálfun útskýrð í stuttu máli

Next
Next

Draumastarfið – hvað gerir okkur ánægð í starfi?