Hvað er markþjálfun?
Markþjálfun er samtalstækni sem ætlað er að opna á möguleika hvers og eins til að hámarka eigin getu. Markþjálfun fer fram í trúnaðarsamtali þar sem markþjálfi spyr spurninga sem vekja einstaklinginn til umhugsunar og hjálpar honum að finna sinn innri styrk. Allt miðar þetta að því að taka skref í átt að eigin tilgangi, draumum og framtíðarsýn.
Með markþjálfun gefst m.a. tækifæri til að fá skýrari sýn á hvað þú vilt, móta leiðina að breytingum sem þú vilt gera, finna innri styrk og hugrekki til að fylgja hjartanu. Markþjálfunarsamtal er alltaf í trúnaði og hver og einn stýrir því sjálfur hvað rætt er í samtalinu.
Hvað þarf að eiga sér stað í markþjálfuninni til að þú gangir þaðan út nær því lífi sem þú vilt lifa en þú ert í dag?
Áður en þú kemur í fyrsta markþjálfunarsamtalið er gott að þú sért búin að velta því fyrir þér hvað þú viljir fá út úr markþjálfuninni. Umræðuefni samtalsins er alfarið í þínum höndum. Samtalið mun snúast um þig og það sem þú vilt. Mitt hlutverk sem markþjálfi er að halda þér við efnið og hjálpa þér að finna svörin þín. Ef þú ert ekki alveg viss hvert þú ert að stefna er það í góðu lagi, við getum fundið út úr því í sameiningu.
Markþjálfun er frábært verkfæri, en hún fer aldrei lengra en þú ferð.
Þess vegna er lykilatriði að á milli markþjálfa og þess einstaklings sem sækir markþjálfun, ríki gagnkvæmt traust og virðing. Opinská og heiðarleg samskipti eru grunnurinn að árangri ásamt virkri þátttöku. Báðir aðilar þurfa að vera tilbúnir til að gera sitt besta til að vinna að þeim viðfangsefnum sem rædd eru í markþjálfuninni.
Til að árangur náist þarf að ríkja algjör trúnaður og er það hluti af siðareglum ICF á Íslandi sem ég starfa eftir (https://www.icficeland.is/sidareglur).
Viljir þú vita meira eða bóka hjá mér tíma í markþjálfun getur þú sent mér tölvupóst á netfangið ragnheidur@loacoaching.is eða smellt á hnappinn Hafa samband hér fyrir neðan og ég svara þér við fyrsta tækifæri.