Er markþjálfun leynivopnið sem þú þarft?
Hvenær settist þú síðast niður með einhverjum og ræddir starfsferilinn þinn? Þá á ég við stóru myndina og framtíðarplönin, ekki upprifjunina sem á sér stað t.d. í atvinnuviðtölum. Mér finnst líklegt að svarið hjá mörgum sé að þetta hafi þau aldrei gert. Það er líka fullkomlega eðlilegt. Slíkt samtal getur samt sem áður verið leynivopnið þitt í að ná sönnum árangri fyrir þig. Slíkt samtal getur breytt lífinu þínu, og þá oftar en ekki til hins betra.
Samtal af þessu tagi er það sem á sér stað í markþjálfun. Ólíkt því sem margir trúa er markþjálfun ekki bara fyrir stjórnendur og frumkvöðla, heldur getur hún gagnast öllum sem hafa vilja til að lifa sínu besta lífi.
Í grunninn er markþjálfun samtalsform þar sem markþjálfi leiðir einstaklinginn áfram með opnum og gjarnan krefjandi spurningum sem fá þig til að hugsa. Markþeginn, einstaklingurinn í markþjálfun, stýrir því alfarið hvert umræðuefnið er og hversu djúpt er kafað en ef traust ríkir í samtalinu hefur það alla burði til að hjálpa til við að finna, eða sjá með skýrari hætti, raunverulegar langanir og leiða fram viljann og hugrekkið til að sækja það sem hjartað þráir. Þessa aðferð má nota með góðum árangri á mörgum sviðum lífsins, þar með talið starfsferilinn.
Hér eru nokkur dæmi um það hvenær og hvernig markþjálfun getur hjálpað þér á starfsferlinum:
Ef þú vilt breyta til, hvort sem er með því að þróa þitt núverandi starf eða feta nýjar slóðir, getur markþjálfun aðstoðað þig við að átta þig á því hvert þú vilt stefna og hvernig þú kemst þangað. Jafnvel gætir þú séð möguleikana í kringum þig sem þú komst ekki auga á áður.
Ef þér finnst þú föst/fastur í núverandi stöðu og að þú komist ekki úr hjólförunum getur markþjálfun hjálpað þér að losa um, finna út úr því hvað þú þarft að gera og virkjað þig til athafna.
Í atvinnuleit getur markþjálfun hjálpað þér að finna draumastarfið sem samræmist þínum gildum og nýtir þína styrkleika. Aukin sjálfsþekking er mikilvægur þáttur í að koma sér á framfæri þegar tækifærin gefast. Hvernig á annars einhver að sjá hvað þú getur, kannt og stendur fyrir ef þú áttar þig ekki á því sjálf/ur og getur þar af leiðandi ekki komið því í orð?
Markþjálfun gæti því vel verið leynivopnið sem þú þarft til að lyfta þínum starfsferli á næsta stig.